Umhverfið

Nágrenni Laugarfells
Í Jökulsá og Laugará, sem eru í nágrenni Laugarfells, eru margir fallegir fossar. Margir þessara fossa fengu ekki nafn fyrr en á síðustu öld þar sem þeir lágu utan almannaleiða. Svæðið er tilvalið fyrir gönguferðir frá skálanum og hægt er að láta þreytuna líða úr sér í heitu laugunum við Laugarfell að göngu lokinni.

Í Jökulsá í Fljótsdal eru um 15 fossar, stórir og smáir. Oddur Sigurðsson jarðfræðingur telur að tæplega geti aðrar ár á landinu státað af meiru, enda er fallhæð árinnar 600 m á aðeins 30 km vegalengd.

Í landamæraskrá sem náttúrufræðingurinn Helgi Hallgrímsson tók saman er að finna þessa lýsingu: „Þar eru nokkrir mikilfenglegustu og fegurstu fossar landsins í Jökulsá og Laugará, einnig fjölbreyttar bergmyndanir, m.a. stuðlaberg, móbergsfell, laugar og mýrlendi með pollum. Landið er algróið að kalla“.

Snæfell
Snæfell er hæsta fjall Íslands sem er utan jökla og þaðan er gott útsýni til allra átta. Vinsælt er að ganga upp á topp Snæfells og ekki þarf annan útbúnað en góða gönguskó.

Snæfell er forn megineldstöð en þar hefur ekki gosið í um 10 þúsund ár. Fjallið myndaðist á síðustu ísöld og er yngsta eldfjall Austurlands. Snjór er á toppi Snæfells allan ársins hring vegna hæðar þess, en fjallið er 1.833 metra hátt.

Í nágrenni Snæfells eru megindvalastaðir hreindýra og heiðagæsa hér á landi. Austan Snæfells er Eyjabakkasvæðið sem er sléttlendi með miklum flæðimýrum.

Laugarvallarlaug
Í Laugarvallardal er náttúruleg sturta sem að rennur ofan í notalega laug. Þetta er einn af fáum stöðum Íslands þar sem hægt er að fara í heita sturtu úti í náttúrunni.

Laugarvallarlaug er um 7 km norðan við Kárahnjúkastíflu. Þangað er aðeins fært fjórhjóladrifnum bílum. Enginn sem þangað ferðast ætti að vera svikinn af þessari náttúruperlu.

Vatnajökull
Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu, um 400 metrar þykkur að meðaltali en þykkastur er hann um 950 metrar. Undir jöklinum er háslétta með dölum og gljúfrum. Hæstu fjöllin undir honum eru 1.800 – 2.000 metrar.

Fyrir 14. öld var Vatnajökull mun minni en hann er í dag og er jafnvel talið að hann hafi verið tveir aðskildir jöklar. Fyrr á öldum var hann kallaður Klofajökull. Vatnajökull náði hámarksstærð árið 1930 en síðan hefur hann verið í stöðugri rýrnun. Nokkrar af mestu eldstöðvum landsins liggja undir jöklinum eins og t.d Grímsvötn og
Öræfajökull. Allur Vatnajökull tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði sem er stærsti þjóðgarður Evrópu.

Margir skriðjöklar ganga út úr Vatnajökli. Í nágrenni Laugarfells eru skriðjöklarnir Eyjabakkajökull og Brúarjökull sem er stærsti skriðjökull Evrópu. Brúarjökull getur skriðið fram um 10 km á ári í jökulhlaupum og getur skriðhraðinn verið allt að 120 m á dag.

Vatnajökulsþjóðgarður
Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður þann 7. júní árið 2008. Hann þekur um 12.000 ferkílómetra eða um 12% af yfirborði Íslands og er stærsti þjóðgarður Evrópu.

Innan Vatnajökulsþjóðgarðs takast á kraftar jökla, eldvirkni, jökulhlaup og eldgos. Í þjóðgarðinum er mikil jarðfræðileg fjölbreytni og ósnortin víðerni. Vatnajökulsþjóðgarður hefur mikla sérstöðu í heiminum út frá náttúrufarslegu tilliti og hefur hann að geyma margar ómetanlegar náttúruperlur.

Laugarfell liggur rétt fyrir utan þjóðgarðsmörkin og þar er tilvalið að gista þegar ferðast er um Vatnajökulsþjóðgarð.

Veiðimenn
Í nágrenni Laugarfellsskála eru góðar veiðlendur fyrir rjúpu, gæs og hreindýr. Stutt er í stærsta veiðisvæði heiðagæsarinnar á Íslandi við Eyjabakka. Þetta er eitt besta gæsaveiðisvæði landsins.

Laugarfell er staðsett á helsta hreindýrasvæði landsins. Gott aðgengi er að dýrunum í nágrenninu og er því skálinn kjörinn fyrir veiðimenn sem eru á hreindýraveiðum.

Við bjóðum veiðimenn velkomna í gistingu eða kaffi í Laugarfellsskála. Gott getur verið að hvíla lúin bein í heitri náttúrulaug að veiðum loknum.

Hafrahvammargljúfur
Hafrahvammagljúfur eru ein hrikalegustu og stórfenglegustu gljúfur landsins. Þau eru 3 km að lengd og gljúfraveggirnir eru allt að 200 metra háir innan til. Hafrahvammagljúfur eru í framhaldi af Kárahjúkavirkjun en frá henni rennur fossinn Hverfandi ofan í gljúfrin.

Hverfandi fellur einungis hluta af ári í Hafrahvammagljúfur. Það er þegar nóg vatn hefur safnast saman í Hálslón og er hann hluti affalls frá því.

Fallegt og um leið hrikalegt er að fá sér göngu með Hafrahvammagljúfri og stutt er þaðan í Laugarvallarlaug.

Lónsöræfi
Í Lónsöræfum er mikil fjölbreytni í litum og landslagi. Fagra steina er víða að finna og mikið er um líparít. Þetta er mjög falleg gönguleið sem tekur um þrjá daga að ganga. Miklar líkur eru á að rekast á hreindýr á leiðinni.

Vinsælt er að ganga frá Snæfelli og yfir Lónsöræfi. Kjörið er að gista í Laugarfelli áður en lagt er af stað eða þegar búið er að ganga yfir Lónsöræfi eftir því hvor leiðin er farin.

Lagarfljótsormurinn
Í Lagarfljótinu er að finna hinn ógurlega Lagarfljótsorm. Fornar sögur er til af honum og ýmsir menn hafa sagst hafa séð orminn. Árið 2012 náði heimamaðurinn Hjörtur Kjerúlf myndbandi af Lagarfljótsorminum sem vakti mikla athygli víða um heim og hafa milljónir manna skoðað myndbandið á youtube.

Hér er myndbandið af orminum og dæmir hver fyrir sig.